SIÐAREGLUR

PERSÓNULEG OG FAGLEG HEILINDI

 

Starfsmenn Ráðhúsins ástunda persónuleg og fagleg heilindi í starfi sínu. Með persónulegum heilindum er átt við hegðun sem er í samræmi við góða almenna siðferðisvitund. Með faglegum heilindum er átt við hegðun sem er í samræmi við siðareglur fyrirtækisins.
Starfsmenn Ráðhúsins virða í starfi hagsmuni almennings.
Starfsmenn Ráðhúsins veita ekki af ásetningi villandi eða rangar upplýsingar.
Starfsmenn Ráðhúsins taka ekki að sér verkefni sem eru til þess fallin að rýra traust almennings á starfi okkar og virðingu á fyrirtækinu sjálfu.
Starfsmenn Ráðhúsins leitast ávallt við að gefa raunsanna mynd af þeirri stofnun, félagi, einstaklingi eða fyrirtæki sem þeir vinna fyrir.
Starfsmenn Ráðhúsins skaða ekki af ásettu ráði orðspor eða starfsemi annarra fyrirtækja eða einstaklinga.


FRAMKOMA GAGNVART VIÐSKIPTAVINUM OG KEPPINAUTUM ÞEIRRA

Starfsmenn Ráðhúsins hafa þá almennu skyldu að sýna viðskiptavinum og vinnuveitendum, núverandi og fyrrverandi, fyllstu sanngirni og trúnað.
Starfsmenn Ráðhúsins taka ekki að sér verkefni fyrir beina keppinauta viðskiptavinar án vitundar viðkomandi.
Í starfi sínu beita starfsmenn Ráðhúsins ekki aðferðum sem gera lítið úr keppinautum skjólstæðinga sinna. Starfsmenn Ráðhúsins villa aldrei á sér heimildir, hvorki í persónulegum samskiptum eða á netinu.
Starfsmenn Ráðhúsins skulu ekki taka við greiðslu fyrir sama verk frá tveimur eða fleiri aðilum án vitundar viðkomandi aðila.


VINNUBRÖGÐ OG MARKMIÐ VIÐSKIPTAVINA

Ráðhúsið tekur ekki að sér verkefni fyrir aðila sem eru í starfsemi sem er í beinni andstöðu við gott siðferði og samfélagslega ábyrgð að mati starfsmanna Ráðhúsins eða beita meðulum eða vinnubrögðum sem eru óeðlileg að mati starfsmanna Ráðhúsins.
Ráðhúsið áskilur sér rétt til að hafna viðskiptum á þessum forsendum og að slíta viðskiptum við núverandi skjólstæðinga ef í ljós kemur að framferði þeirra eða markmið eru í andstöðu við áðurnefnd skilyrði.


FRAMKOMA Í SAMSKIPTUM VIÐ FÓLK (Þ.M.T. Á NETINU)

 

Starfsmenn Ráðhúsins viðurkenna og leiðrétta ef þeir hafa gert mistök. Þeir iðka fullt gagnsæi gagnvart mistökum sínum og reyna ekki að breiða yfir þau.
Starfsmenn Ráðhúsins virða höfundarrétt og nýta ekki hugverk annarra í hagnaðarskyni fyrir sig eða umbjóðendur sína án leyfis.
Starfsmenn Ráðhúsins koma aldrei fram í skjóli nafnleysis. Við gefum ávallt upp okkar rétta nafn og fyrir hverja við störfum.