• sigmundur2018

Vöxtur og bestun vefverslana

Okkur finnst ástæða til að fjalla um verslun í þessari viku. Er það ekki síst vegna þess að við fylgdumst með ljómandi áhugaverðri ráðstefnu Samtaka verslunar og þjónustu sem haldin var í þessari viku. Það þarf ekki að segja nokkrum frá því að netverslun hefur aukist á tímum Covid, enda höfum við fjallað um þær breytingar hér. Það var áhugavert að heyra Eddu Blumenstein fara yfir helstu stærðir sem Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur verið að taka saman um þessa þróun. Því það hefur sannarlega orðið gríðarlegur vöxtur á stuttum tíma. Þetta sést vel á því þegar bornar eru saman tölur um veltu í netverslun í desember 2019 og 2020. Íslendingar versluðu vörur fyrir 4,1 milljarða á netinu í desember sem er rúmlega tvöföld aukning á milli ára (1,5 millj. 2019). Það sem er kannski merkilegast er þó að netverslun er ekki nema 7,4% af allri verslun í desember 2020.


Hér er áhugavert að bera Íslendinga saman við aðrar þjóðir í Evrópu. Eurostat hefur nýlega birt upplýsingar um netverslun í Evrópu og þar má sjá að við kunnum svo sannarlega að versla á Netinu. 83% Íslendinga reyndust hafa verslað á netinu á undanförnum 12 mánuðum samkvæmt niðurstöðum athugunar Eurostat og eiga Íslendingar það sammerkt með öðrum Norðurlandaþjóðum að við erum augljóslega búin að tileinka okkur netverslun.
Okkur þykir áhugavert að skoða niðurstöður frá Eurostat og bera þær saman við stöðuna hér á landi og þá ekki hvað síst vegna þess að innlend netverslun á í harðri samkeppni við risastóra erlenda aðila á borð við AliBaba og Amazon. Covid hafði þarna bein áhrif. Netverslun einstaklinga erlendis minnkaði líka vegna breytinga á gjaldskrá Íslandspósts sem hóf aukna gjaldtöku á erlendum sendingum síðla árs 2019. En í ESB löndum er það oftast þannig að verslun er beint til verslunar í viðkomandi landi, þó um þriðjungur sé frá öðrum löndum innan ESB. Af þessu drögum við þá ályktun að íslensk verslun eigi töluvert inni hjá neytendum.
Það er því virkilega áhugavert að huga að bæði þeim vöruflokkum sem ganga vel í netverslun og ekki síður þeim áskorunum sem geta fylgt því að ná árangri. Á meðan flæði stafrænnar þjónustu og verslunar er einfalt, þá er það langt í frá það sama sem á við þegar kemur að verslun með aðra vöruflokka. Allir sem keypt hafa vörur erlendis frá þekkja þetta ferli hér á landi og það sama gildir raunar um þá íslensku aðila sem reynt hafa að selja vörur erlendis. Innri markaður ESB tryggir að vörur og þjónusta fara greiðlega milli landa, en vegna þess að við erum ekki innan ESB þá eru neytendavörur sem seldar eru héðan skilgreindar hjá ESB sem vörur frá löndum utan ESB og lenda þá í tollskoðun með tilheyrandi töfum og álögðum gjöldum. Þetta sætta neytendur innan ESB sig ekki við og viljir þú sækja inn á markað í ESB með þínar vörur er nauðsynlegt að huga vel að því hvernig komast megi hjá þessari hindrun.
Sókn inn á erlenda markaði krefst líka undirbúnings. Þar búum við yfir bæði þekkingu og reynslu. Við erum í samstarfi við erlenda aðila sem gera okkur kleyft að gera margvíslega markaðsrannsóknir, auk þess sem samstarf okkar við erlendar ráðgjafastofur og hugbúnaðarframleiðendur gerir okkur kleyft að veita þeim sem huga að markaðsókn erlendis aðgang að öflugum verkfærum og ráðgjöf sem virkar.


Okkur þótti líka fyrirlestur Meaghan Connell afar áhugaverður, en hún er annar af stofnendum Praxis Metric sem sérhæfir sig í nýtingu gagna til að ná fram veldisvexti í veltu. Við hér hjá Ráðhúsinu ráðgjöf erum svo sannarlega sammála þvi sem Meaghan fjallar um og teljum að það séu gríðarleg tækifæri sem liggi í betri nýtingu gagna. Auk þess sem það er sannarlega rétt sem hún benti á að flestir eru rétt að byrja í sínu stafræna umbreytingaferli. Þessu ferli sem Meaghan lýsir þannig að við byrjum á að safna gögnum, sem er síðan breytt í upplýsingar, sem verða að vitneskju og að lokum að þekkingu og færni sem gerir okkur kleyft að spá fyrir og bregðast við framtíðinni.


Fjölmörg fyrirtæki eru í þeim sporum að þau eru bara rétt að byrja í þessu ferli. Raunar er þér óhætt að óska sjálfum (sjálfri) þér til hamingju ef þú ert komin(n) lengra, því þá hefur þú líklega náð samkeppnisforskoti á þína helstu keppinauta. En flestir eru þeir að safna upplýsingum og birta þær, með fókus á fortíðina. Oft er mikið unnið handvirkt og óhægt um vik að auka afköst án kostnaðar. Það er mikilvægt að leggja á það alla áherslu að vöxtur sem kalli á aukin útgjöld sé óheppilegur. Með stafrænum lausnum og nýtingu gagna má nefnilega ná fram kvörðunarkostum þar sem hægt er að auka tekjur án þess að auka kostnað. Við tökum undir með Meaghan sem segir að til þess að ná þessu markmiði þarf að skilgreina mælikvarða, velja réttu verkfærin og svo þurfa allir að róa í sömu átt.


Þetta gerist sannarlega ekki að sjálfu sér. En það eru að sjálfsögðu til leiðir til þess á ná árangri á þessu sviði, ef hugað er að góðum grunni. Þar getum við hjá Ráðhúsinu ráðgjöf komið til hjálpar. Við eigum til og þekkjum bæði aðferðir og verkfæri sem gagnast vel þeim sem vilja ná veldisvexti án gríðarlegra fjárfestinga.