• Ráðhúsið

Tíu ár á þremur mánuðum

Í öllum krísum eru fólgin tækifæri og þetta sést svo sannarlega á smásölumarkaðnum, bæði hér á landi og erlendis. Samtök verslunar og þjónustu segja íslenska smásöluverslun blómstra sem aldrei fyrr og benda á tölur sem sýna að velta í júlí hafi verið jafn mikil og í desember síðastliðnum, en desembermánuður er að jafnaði “stærsti” mánuður ársins í smásöluverslun. Haft er eftir Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra SVÞ, að minni verslun Íslendinga í útlöndum og aukinn kaupmáttur sé sannarlega að skila sér, þó þeir sem sinni erlendum ferðamönnum hafi vissulega borið mun minna úr bítum en venjulega. Þegar horft er til útlanda eru einnig miklar breytingar þar, en oft eru mun harðari takmarkanir þar en tíðkast hér. Efnahagssamdráttur er hins vegar sameiginlegur í öllum þessum löndum. McKinsey sendi nú nýlega frá sér skýrslu þar sem fjallað erum áhrif Covid19 faraldursins í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi sem bendir til þess að miklar breytingar séu að verða á smásölumarkaði. Gjarnan er talað um að á 3 mánuðum hafi átt sér stað 10 ára þróun sem krefjist nýrrar hugsunar í smásölu.Meðal þess sem kemur fram í skýrslu McKinsey er að í apríl hafi átt sér stað 16,5% samdráttur í smásölu í Bandaríkjunum, sem er mesti samdráttur frá því mælingar hófust. Á sama tíma eru miklar breytingar á kauphegðun, því 46% neytenda í Bandaríkjunum segjast hafa valið ný vörumerki eða farið í aðra verslun en þeir eru vanir. Það ætti því ekki að koma á óvart að netverslun nýtur góðs af þessum breytingum og þar fór hlutur hennar úr því að vera 16% árið 2019 í 33% í apríl 2020 í netverslun. Neytendur skiptu yfir í stafrænar og snertilausar aðferðir í verslun vegna Covid og vissulega er ástæða til að velta fyrir sér hvort þessi breyting sé komin til að vera.


Neytendur virðast hafa ákveðið að í þessari krísu væru þeir tilbúnir til að prófa eitthvað nýtt, í stað þess að halla sér að því sem þeir þekkja frá fyrri tíma. Eins og áður segir var mesta breytingin í Bandaríkjunum, en í þessum 4 löndum breyttu 40% neytenda um vörumerki eða prófuðu nýja verslun. Netverslun jókst um heil 30% frá byrjun mars og fram í miðjan apríl og ókeypis vöruafhending og þægindi varðandi vöruskil skipta áfram miklu, en nú leggja neytendur meiri áherslu á hraða, skýrar vörulýsingar og gott myndefni fyrir vöruval.Þegar kemur að verslunum skiptir öryggið viðskiptavini miklu. Helmingur vill að verslanir hafi skýra stefnu varðandi öryggismál, bæði viðskiptavina og neytenda, á meðan 59% segja mikilvægt að ekki sé of mikill fjöldi í verslunum og 30% segja nauðsynlegt að mátunarklefar séu hreinir og sótthreinsaðir reglulega. Þá vilja viðskiptavinir geta lokið viðskiptum sínum eins og hratt og auðveldlega og nokkur kostur er. Þessir sömu viðskiptavinir vilja geta greitt fyrir vörur með farsímum sínum og vaxandi fjöldi nýtir farsímaöpp til að panta.


McKinsey leggja áherslu á þrjá þætti sem smásöluverslun þurfi að gera til að bregðast við þessu. Í fyrsta lagi eigi að innleiða OmniChannel aðferðina af fullum þunga í starfsemi sinni. Verslunin verður að hafa mikinn skilning á hegðun og þörfum viðskiptavina bæði í verslunum og á netinu. Þetta þarf verslunin að nýta sér þetta til að veita betri þjónustu og upplifun. Í öðru lagi þurfi verslun að endurvekja áherslu á hollustu með því að afla sér góðra gagna um væntingar og óskir viðskiptavina og bregðast við þeim með nýrri eða breyttri vöru og þjónustu. Í þriðja lagi þurfi að fjárfesta í tækni sem skapar þægindi, sé gagnlegt og skapi öryggi viðskiptavina í versluninni.


Skoðaðu umfjöllun McKinsey breytingar á smásölumarkaði