• Ráðhúsið

Óvæntur uppgangur fréttabréfa

Það kann að koma á óvart að fréttabréf sem send eru í tölvupósti njóti vaxandi vinsælda meðal útgefenda, enda ekki svo langt síðan tölvupóstur átti undir högg að sækja í þessum efnum. En tölvupóstur nýtur vaxandi vinsælda því neytendur hafa haldið tryggð við tölvupóst og hann nýtur vinsælda við markaðssetningu á vöru og þjónustu, þrátt fyrir að við höfum fengið ný og öflug tól fyrir stafræna markaðssetningu. Staðreyndin er einfaldlega sú að tölvupóstur er bæði skilvirk, fljótleg og þægileg leið til að koma efni á framfæri.


Samkvæmt nýlegri umfjöllun Reuters um það hvernig fjölmiðlar og útgefendur eru að nýta sér tölvupóst kemur í ljós að töluverður munur er á notkun þessa milli landa. Það er ekki hægt að fullyrða hversu mikil notkunin er hér á landi, en allar vísbendingar benda til þess að stór hluti lesenda frétta kunni vel að meta þjónustuna við að fá fréttir og markaðsefni í tölvupósti. Það sem skiptir hvað mestu fyrir þá sem eru að huga að markaðsmálum sínum er sú staðreynd að hópurinn sem nýtir sér tölvupóst mest er almennt með hærri tekjur og hefur mikinn áhuga á fréttatengdu efni. Hann er líka almennt nokkru eldri, því tölvupóstur er sérlega góð leið til þess að ná til þeirra sem eru eldri en 45 ára.

Reuters gerði nýlega rannsókn í 21 landi sem leiddi þetta í ljós og gefur okkur góða innsýn inn í hvernig fjölmiðlar og markaðsfólk geti aðlagað sig að umhverfi þar sem hefðbundnir fjölmiðlar eiga undir högg að sækja. Íslenskir miðlar hafa sannarlega nýtt sér þetta og hér á landi eru vel þekkt dæmi um stafræna miðla sem hafa nýtt sér fréttabréf til að senda daglegt fréttayfirlit. Það kom einmitt í ljós í rannsókn Reuters að lesendur eru hrifnir af því að fá send fréttabréf að morgni dags og telja það hjálpa sér við að komast í gegnum upplýsingaflóð dagsins.


Erlendis hafa fjölmiðlar á borð við New York Times, The Washington Post og The Times þróað þessi fréttabréf og hafa náð eftirtektarverðum árangri í notkun þeirra. New York Times hefur til að mynda skipað sérstakan ritstjóra fyrir sín fréttabréf sem send eru til 17 milljón áskrifenda. Tóninn í fréttabréfinu er líka oft ólíkur þeim sem sjá má í netmiðlum almennt. Þar virðist vera meira frelsi til persónulegrar áherslu og oft er stutt í húmor og gleði. Dæmi um þetta er Red Box sem The Times gefur út og hefur eignast sjálfstætt líf sem hlaðvarp.


Þessi fréttabréf eru oftast send án endurgjalds til allra sem þess óska og eru því bæði aðferð til að minna lesendur á áhugavert efni og ekki síður aðferð til að sækja sér nýja áskrifendur. Það sem er kannski enn áhugaverðara er að flestir þeirra sem eru áskrifendur segjast lesa þessi fréttabréf reglulega. Samkvæmt upplýsingum frá útgefendum eru þessi fréttabréf mikið lesin og þannig segir New York Times að 60% þeirra sem fá morgunfréttir frá þeim opni og lesi þau. Það er hins vegar afar áhugavert að sjá að samkvæmt þessari rannsókn Reuters virðast þessar miklu vinsældir ekki vera til staðar á Norðurlöndunum, hver svo sem skýringin kann að vera á því.

Þetta er því áhugavert tækifæri fyrir auglýsendur. Fréttabréf sem send eru til áskrifenda eru einföld og þægileg leið til að ná til lesenda og þó vissulega séu ákveðnar takmarkanir á því sem hægt er að gera í tölvupósti, þá er líka ljóst að þarna er áhugaverður hópur lesenda á ferðinni. Það skiptir þó máli hér, líkt og í allri annari stafrænni útgáfu, að taka tillit til óska og væntinga lesenda. Því þó fréttabréf í tölvupósti eigi án efa eftir að þróast, þá er áhersla á einfaldleika, áreiðanleika, trausta ritstjórn og að draga fram mikilvægustu fréttamola dagsins eitthvað sem mun halda áfram að skipta lesendur miklu máli, nú á tímum ofgnóttar upplýsinga og upplýsingaóreiðu.