• sigmundur2018

Netverslun á tímum Covid-19 faraldurs

Updated: Mar 19, 2021

Áhrif Covid-19 faraldurs á netverslun hér á landi og mögulegar breytingar á kauphegðun íslenskra neytenda


Við hjá Ráðhúsinu ráðgjöf erum mjög áhugasamir um breytingarnar sem eru að verða á íslensku samfélagi vegna Covid-19 faraldursins. Hann hefur haft áhrif á atvinnulífið, t.d. á ferðaþjónustuna, verslun, afþreyingu, íþróttaiðkun, opinbera þjónustu og þannig mætti lengi telja. Áhrifin eru víðtæk og í raun um allt íslenskt samfélag. Við teljum að þessara áhrifa muni gæta framvegis, á margan hátt.


Þar sem áhrif faraldursins er ekki síst að finna í kauphegðun og hvað verslun á netinu varðar sáum við ástæðu til að skoða þetta nánar. Fyrir síðustu áramót könnuðum við möguleg áhrif Covid-19 faraldursins á hátíðahöld landsmanna. Þetta fjölluðum við um í grein okkar í upphafi árs 2021 og þær rannsóknir sýna að 30-50% þess sem við höfum vanist um hátíðarnar breyttist við síðustu áramót. Hvort þær breytingar vari áfram kemur í ljós um næstu áramót. En þar sem áhrif Covid-19 eru mikil og telja má í sumum tilfellum langvarandi er ástæða til að kanna á hvaða hátt þau eru. Þess vegna könnuðum fyrir skömmu netverslun og hvernig hún hefur verið undanfarið á fordæmalausum tíma. Niðurstöður könnunarinnar benda til breytinga á kauphegðun og hvað netverslun meðal almennings varðar. Neytendur eru sumir að tileinka sér nýja verslunarhætti sem leitt geta til enn frekari breytinga á þessu sviði atvinnulífsins. Þótt breytingar verði í almennum sóttvörnum og þær snúist í fyrra horf, t.d. með afnámi skyldunotkunar á andlitsgrímum, fjarlægð milli fólks í opnu rými og fleira af því tagi er líklegt að margt annað muni breytast sé litið til framtíðar.


Við breytingar skapast tækifæri og um það eru næg dæmi. Í ljósi þess að vænta megi breytinga með aukinni netverslun, má spyrja hvort þeir sem hafa lítið sem ekkert aðhafst undanfarið eigi að taka til hendinni og grípa tækifærin sem eru framundan. Er e.t.v. tímabært að láta í sér heyra, með góðri markaðssetningu, aukinni áherslu á stafrænar lausnir og þekkingu á breyttum aðstæðum? Hvað gæti verið í vegi fyrir framúrskarandi árangur á næstunni? Líklega fátt.Eins og nefnt hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum hefur orðið marktæk breyting í verslun vegna faraldursins sem nú geisar. Í löndunum í kringum okkur hefur verslun á netinu aukist verulega og stundum margfaldast. Líkt og sjá má á könnun PricewaterhouseCoopers um kauphegðun er 50-70% aukning í netverslun víða í Evrópu og fleiri en átta af hverjum tíu hyggjast versla jafnmikið eða meira á netinu en almennt hingað til. En hvernig er þessu háttað hér á landi og hvað eru neytendur að versla á netinu?


Við hjá Ráðhúsinu ráðgjöf ákváðum að framkvæma könnun um netverslun hér á landi og niðurstöður eru afar áhugaverðar eins og búast mátti við.


Nær allir þátttakendur könnunarinnar eða rúmlega 9 af hverjum 10 hafa verslað á netinu. Þannig er óhætt að fullyrða að verslun á netinu er orðin mjög almenn hér á landi og neytendur versla óhikað þar.
Þá má velta þeirri spurningu upp hve oft neytendur versla á netinu, ef undan eru skildar streymisveitur á borð við Spotify eða Netflix.

Í ljósi kemur að tæplega fimmti hver kaupir vöru eða þjónustu á netinu einu sinni í viku eða oftar og 60% versla á netinu mánaðarlega eða oftar. Þannig benda niðurstöðurnar til að nær tveir þriðju íslendinga versli vöru eða þjónustu á netinu mánaðarlega eða oftar. Því vaknar spurningin hvort vefsíður viðkomandi verslana séu ekki í stakk búnar við að þjóna þessum ágætu neytendum á netinu? Einnig er rétt að hafa í huga að margir neytendur finna vöru eða þjónustu á netinu en fara síðan í viðkomandi verslun til að ganga frá kaupunum. Þess vegna er full ástæða til að gæta að vefsíðu verslunarinnar.Þegar spurt er um hvaða vöru neytendur eru að kaupa á netinu kemur í ljós að það er í raun langflest sem þar er í boði. Fatnaður, tískufatnaður eða tískuvara er efst í hugum neytenda þegar að netverslun kemur. Þar á eftir er ferðaþjónusta mest keypt en þessu næst íþróttavara og íþróttafatnaður. Athygli vekur að tæplega þriðji hver kaup mat og drykkjarvöru til daglegrar neyslu á netinu. Dagvörumarkaðurinn er afar áhugaverður markaður þar sem reikna má með að tíðni viðskipta séu nokkru meiri en tíðni kaupa á tískuvöru eða ferðaþjónustu. Þannig kemst enn frekar í vana meðal neytenda að annast kaup á vöru og þjónustu á netinu, þrátt fyrir mögulega nálægð viðkomandi verslana.
Athygli vekur að verslanir sem bjóða gjarnan nokkra vöruflokka í verslunum sínum þurfa að gæta þess að njóta samlegðaráhrifa viðskiptanna. Því má velta þeirri spurningu upp hvort t.d. lyfjaverslanir, sem gjarnan selja snyrtivöru, barnavöru, vítamín og fæðubótarefni auk lyfja, séu að hámarka mögulega netverslun hjá sér með markvissri og skynsamlegri framsetningu annarrar vöru sem þar er að finna. Sama gildir um dagvöruverslun sem býður oft marga vöruflokka og er einnig að selja tímabundna vöru um jól, páska, og aðrar hátíðir.

Þegar spurt er um hvaða öryggisatriði skipta helst máli við netverslun nefna þátttakendur könnunarinnar greiðsluöryggi fyrst. Því næst er nefnt öryggi við afhendingu vörunnar og þar á eftir er nefnt mikilvægi þess að varan líti eins út og í vefverslun viðkomandi verslunar. Spurt var um fleiri þætti sem snerta öryggi við netverslun og hér er tækifæri meðal kaupmanna að tileinka sér og tilgreina í hverju öryggi netverslunar sé fólgið.


Loks sést á niðurstöðum könnunarinnar að kauphegðun er svolítið mismunandi eftir aldri og kyni þátttakenda. Af nægu er að taka þegar kannað er hvernig netverslun hér á landi er hagað. En kaupmenn búa við margs konar tækifæri við netverslun hér á landi sem annars staðar. Er ekki vefverslunin örugglega tilbúin til móttöku allra viðskiptavinanna, markaðs- og kynningarefni allt til staðar og búið að láta markhópana vita? Er ekki öll mikilvæg og nauðsynleg þekking til staðar til móttöku nýrra áskorana í verslun á Íslandi. Ef eitthvað skortir má gjarnan hafa samband við okkur hjá Ráðhúsinu ráðgjöf.