• Ráðhúsið

Sex meginstraumar stafrænna vinnustaða 2020

Ráðgjafafyrirtækið Gartner gaf út í ágúst yfirlit um helstu strauma sem þeir kjósa að kalla "Hype Cycle" fyrir vinnustaði og telja sérfræðingar Gartner að Covid hafi heldur betur ýtt undir þróun í stafrænu umbreytingaferli fjölmargra fyrirtækja og stofnanna. Margir upplýsingatæknistjórar hafa komist að því að þeir þurfi að gera umbætur á umhverfi sínu svo vinnustaðir þeirra komist klakklaust í gegnum þær áskoranir sem fylgja Covid19.


Hype Cycle for the Digital Workplace, 2020
Heimild og höfundarréttur myndar Gartner 2020

Þróun 1: Nýr kjarnavettvangur við vinnu

Þarna er vísað til margvíslegra verkfæra sem við nýtum til vinnu, samstarfs og samskipta sem byggja á SaaS lausnum sem eru sameinuð í heildstæðri lausn í skýinu. Þetta er til að mynda tölvupóstur, spjallforrit, skjalastjórnun, leit, fundir og samstarfsverkfæri.


Þróun 2: Þú kemur með þín verkfæri í vinnuna

Starfsfólk er í auknum mæli farið að nýta sér sín eigin verkfæri við vinnuna sem upp á engilsaxnesku eru sameinuð með skammstöfuninni BYOT og stendur fyrir Bring Your Own Technology. Meðal þess sem nýtum okkur við vinnuna eru snjallúr, snjallheyrnartól og jafnvel sýndarveruleikabúnaður. Gartner spáir því að þetta eigi eftir að aukast enn frekar og við mætum jafnvel með okkar eigin vélmenni og dróna.


Þróun 3: Meiri fjarlægð

Í stað persónulegra funda og viðburða þar sem við hittumst í eigin persónu hafa fjarfundir orðið að venju á meðan á Covid stendur. Fyrirtæki og stofnanir hafa því þurft að aðlaga sig með hraði við að bjóða þjónustu sem ekki krefst þess að viðskiptavinir séu á staðnum. Gildir þetta hvort sem heldur er um þjónustu eða viðburði.


Þróun 4: Snjallir vinnustaðir

Snjallir vinnustaðir nýta stafrænar lausnir til að styðja við nýsköpun og hagræðingu. Dæmi um slíkar lausnir eru IoT, stafrænar merkingar, hreyfiskynjarar, andlitsauðkenningarkerfi, sýndarvinnurými og samþætt vinnusvæði. Allar staðsetningar sem starfsfólk kýs að nýta til vinnu geta verið snjallir vinnustaðar eins og til dæmi hefðbundar skrifstofur, skrifborðið, kaffihúsið eða heima við.


Þróun 5: Skrifstofan sem þjónusta

Þeir hjá Gartner kalla þetta Desktop as a service (DaaS). Einfaldast er að þýða þetta hugtak sem skrifstofa sem þjónusta, þar sem þú hefur ekki aðeins aðgang að tölvukerfum, heldur hefur hreinlega fullan aðgang að öllu því sem þú hefur vanist á skrifstofunni þinni, hvar svo sem þú hefur ákveðið að stunda vinnu þína. Horft hefur verið til sýndarveruleika sem hugsanlegs möguleika, en það hefur reynst flóknara og dýrara en gert hafði verið ráð fyrir.


Þróun 6: Lýðvæðing upplýsingatækni

Upplýsingatækni framtíðarinnar mun verða í auknum mæli þróuð og valin af þeim sem eru að nýta hana. Nokkur dæmi um þetta eru:


Starfsmenn sem búa til ný viðskiptaforrit með því að nota þróunarverkfæri og umhverfi sem upplýsingatæknideildir hafa skilgreint sem örugg. Þessi þróun byggir á nýjum verkfærum þar sem mjög takmarkaðrar þekkingar á forritun er krafist eða hún jafnvel óþörf.

Samþættingarverkfæri sem gera notendum með lágmarkskunnáttu í upplýsingatækni kleyft að samþætta ólíkar upplýsingar, ferla og verkfæri með skilvirkum hætti án þess að þurfa grípa til forritunar.

Gagnaverkfæri sem gera notendum kleyft að vinna ítarlegar greiningar á gögnum, án aðkomu sérfræðinga.


Kynntu þér betur efnið hjá Gartner