• sigmundur2018

Markaðsmál í faraldri og hvernig má komast úr kófinu

Innihaldsrík markaðsfærsla (Content Marketing) hentar einstaklega vel og getur því skipt miklu máli


Rannsóknir sýna að innihaldsrík markaðsfærsla hefur undanfarið skilað meiri árangri en hefðbundnar aðferðir og ef þú vilt ná árangri í starfseminni getur hún skipt þig verulegu og marktæku máli. Kóf faraldursins hefur skapað mörg tækifæri sem sumir eru að njóta um þessar mundir meðan aðrir eru úrræðalausir.


Segjum eftirminnilegar sögur


Langflestir vilja heyra og sjá góðar sögur. Til að viðskiptavinir fái betri og jafnvel aðra og jákvæðari sýn á það sem er í boði hefur reynst árangursríkt að segja sögur um vöruna eða þjónustuna. Sögur geta verið áhrifaríkar, eftirminnilegar, og skemmtilegar til áhorfs eða lestrar. Þess vegna er ágætt að vinna markaðsefnið með frásögn til grundvallar.

Þegar við markaðssetjum er gott að horfa til lengri tíma. Þannig má halda sögunni áfram um langan tíma, þótt áherslur eða upplegg breytist eitthvað. Gætum að hugmyndaauðgi og sköpunargleði við frásögn okkar. Mótum vettvang skilaboða til framhalds, þar sem lesendur geta stöðugt verið að fræðast um kosti vörunnar eða þjónustunnar, bæði það sem reynst hefur vel og hvert er stefnt. Bendum á nýja kosti vöru og þjónustu sem markhópum eða öðrum hefur mögulega yfirsést til þessa. Einnig má staðfæra vöru eða þjónustu með nýjum hætti og skapa þannig stærri markhópa og fylgjendur eða kaupendur.

Notum margs konar vettvang og aðferðir til skilaboða, hvort sem það er gert með myndmáli, texta, hreyfimynda og hljóðmyndar. Þegar markaðsefni er unnið er ágætt að hafa margar samskiptagáttir í huga. Að auki er hægt að leyfa viðskiptavinum okkar að taka þátt í markaðsfærslunni með því að gefa þeim kost á að skila inn ábendingum, dómum, umsögn og annað sem hjálpar við markaðssetninguna.

Allt ofangreint þarf svo helst að annast með kosti upplýsingatækni meðferðis s.s. leitarvélabestunar, með árangursmælingar og markmiðasetningu að leiðarljósi. Þetta er í raun sáraeinfalt og ef þú ert í vafa er stutt að leita sér liðsinnis í þessum efnum, t.d. til okkar hjá Ráðhúsinu ráðgjöf.


Líkt og búast má við hefur markaðssetning breyst verulega síðustu mánuði m.a. vegna Covid faraldursins og ástandsins sem ríkir í atvinnulífi, samfélagi og um heimsbyggðina. Vegna þessa er þrennt sem rík ástæða er til að skoða nánar þegar fengist er við markaðsmál og það snýst um innihaldsríka markaðsfærslu. Hvernig gerum við þetta?:


 1. Sviðsmynd markaðsaðstæðna: Hvað er í gangi og hvað er á seyði? Hvernig er markaðurinn að fást við núverandi aðstæður, hvað eru neytendur að gera og hvað gera keppinautar. Hvað er að skila árangri og hvað er augljóslega að hverfa af markaðnum eða er jafnvel búið að vera ósýnilegt gagnvart viðskiptavinum og neytendum undanfarið? Þekking á þessu er afar mikilvægt og sviðsmyndin hefur breyst og er að breytast. Þekktu sviðsmyndina eins og kostur er.

 2. Vettvangur skilaboða: Hver er vettvangur skilaboðanna eða efnis frá þér? Ertu að nota einhvern vettvang umfram aðra, hvers vegna og er það að skila viðunandi eða góðum árangri? Er bara notast við samfélagsmiðla eða er dreifing skilaboða og framsetning þeirra í takt við þá miðla sem neytendur og viðskiptavinir leita til eða styðjast við í ákvörðunarferlinu? Veistu hverju samskiptin eru að skila þér - hefurðu mælt árangurinn eða árangursleysið? Hvar á samtalið sér stað?

 3. Markhópurinn: Hver er hann og hvar? Hvað vill hann sjá, heyra og jafnvel upplifa? Hvenær, hve oft og hvernig hentar honum að meðtaka skilaboðin? Við hvern ertu að tala?

Það skiptir talsverðu máli, til að tryggja góðan árangur markaðstarfsins, að þekkja markhópana sína vel, vita hvað þeir vilja og eftir hverju þeir sækjast. Einnig er áríðandi að velta því upp hvað skiptir þá helst og raunverulega máli. Þetta þarf að skoða og skipuleggja vel til að fá eitthvað bitastætt úr markaðsaðgerðum okkar. Þekktu markhópana þína vel.


Þeir sem vita ekki svarið við þessu og skortir hugmyndir, sköpunargleði, þekkingu eða færni geta hysjað upp um sig, reimað á sig skóna og haldið út á völlinn. Það eru enn til staðar og hafa sjaldan verið fleiri eða meiri tækifæri til að markaðssetja á innihaldsríkan og eftirminnilegan hátt en núna.


Fjórir þættir sem vert er að hafa sérstaklega í huga eru þessir:

 1. Ekki “drekkja” markhópnum eða viðmælendum í tölvupósti eða innihaldslausum skilaboðum.

 2. Notaðu helst þitt eigið efni til að koma skilaboðum á framfæri um vöru eða þjónustu. Ásýnd markaðsefnis skiptir hér verulega miklu máli.

 3. Fylgstu nákvæmlega með viðbrögðum markhópanna með aðferðum upplýsingatækni.

 4. Uppfærðu efnið þitt reglulega, hratt og vel.


Sviðsmyndin og rannsóknir

Ef við erum að markaðssetja og vitum ekkert hvernig keppinautarnir eru að fást við aðstæðurnar er ólíklegt að við náum miklum árangri. Ef við vitum lítið eða ekkert um verslun eða þjónustusókn neytenda við núverandi aðstæður eða breytingarnar sem eru að verða, kjósum að giska á þetta allt, er líklegt að þorri þess sem við gerum fari í súginn. Ef ekkert er gert mun heldur ekkert gerast, hvort sem er okkur til hagsbóta og framdráttar. Ef við rýnum aðeins í sviðið og skoðum leikvöllinn sem við erum að annast markaðssetningu á getum við skipulagt markaðsaðgerðir með árangursríkum hætti. Ef við erum í vafa er gott að afla upplýsinga með viðhorfs- eða markaðsrannsókn. Það ætti að auka líkurnar marktækt á að markaðssetningin verði árangursrík. Ágætt er að hafa í huga að Besserwisserar eru víða og hafa gaman af því að tjá sig og hlusta á sig sjálfa. Það er í góðu lagi að hlusta, en oftast er ekkert ýkja hagstætt að fara að ráðum þeirra. Þeir tala mikið án þess að hafa mikilvæga þekkingu eða reynslu af því hvert er fengist við.


Að fenginni sviðsmynd er ágætt að leggja á ráðin um næstu skref. Skorti sviðsmyndina og við viljum ekki eða höfum ekki tök á að starfa í samræmi við markaðsaðstæður eða í takt við óskir viðskiptavina er líklegt að erindið skili okkur litlu. Við sitjum mögulega eftir með sárt ennið, aðeins fátækari en áður, en keppinautar og þeir sem bjóða hugsanlega staðgönguvöru og þjónustu blómstra. Hvort viltu hafa sárt enni eða blómstra? Þess vegna skulum við greina sviðsmyndina sem við erum að fást við, og helst með góðum líðsfélögum ef það er í boði.

Skipuleggjum og áætlum hvað við hyggjumst gera í takt við sviðsmyndina. Setjum fram markmið og hvaða leiðir við ætlum að fara til að ná þeim. Verum ófeimin og heiðarleg við að horfast í augum við aðstæður og hugsanlegan árangur þegar hann birtist.

Vettvangur boðmiðlunar

Getur vettvangur skilaboða fyrir innihaldsríka markaðssetningu skipt máli? Já því margt sýnir okkur og hefur sýnt að það getur haft mikil áhrif hvar við lesum, sjáum og heyrum skilaboðin. Einnig skiptir máli hvenær dags markhópar okkar eru að meðtaka boðskapinn og stundum getur nærstaða annars efnis ýmist truflað eða hjálpað við boðskiptin. Við höfum næg dæmi um það sem gengið hefur vel og hvað hefði mátt vera betra. En vettvangur getur skipt talsverðu máli og þess vegna ber að vanda valið með þeim hagsmunum að leiðarljósi sem skipta þig, vörumerkið, vöruna eða þjónustuna mestu máli. Nýleg dæmi má t.d. finna frá Norðurlöndum um að verðmæti vörumerkja rýrna marktækt ef þess er ekki gætt hvar skilaboðin birtast. Það getur reynst dýrkeyptur lærdómur sé þessa ekki gætt. Verðmæti vettvangs eru einnig það fjölskrúðug og stundum örlítið villandi. Það er því full ástæða til að vanda til verka við val á vettvangi boðskipta. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar stuðst er við Google fyrirkomulag birtinga. Það hefur verið umdeilt hvort áhrifavaldar séu til hjálpar í markaðssetningu eða til vandræða. Þeirra aðkoma getur líka kostað svolítið fé og ætíð er gott að velta þeirri spurningu upp hvort það borgi sig að njóta krafta þeirra eða hvort aðrar leiðir séu vænlegri.

Gætum þess að velja vettvang boðskipta vandlega. Ef vafi leikur á því hvað hentar er auðsótt að leita upplýsinga um það hjá hlutlausum ráðgjöfum. Við hjá Ráðhúsinu ráðgjöf veitum hlutlausa ráðgjöf í boðmiðlun sem hentar fyrir þín skilaboð.


Markhópar

Við hvern eða hverja ertu að eiga boðskiptin, hve oft berast þau þeim og hvar? Hvað vill og þarf markhópurinn helst að heyra og hvað aðgreinir þig frá keppinautunum? Hvernig má tvinna saman þá eiginleika sem þú býður við vilja og væntingar viðskiptavinarins eða markhópa? Hvað gerir vöru eða þjónustu þína áhugaverða, jafnvel spennandi og helst betri í huga markhópa og viðskiptavina?

Þetta er að það sem stundum yfirsést í markaðsstarfi og hér er mikilvægt að forðast sjálfhverfni. Markhópurinn “allir” er ekki til og hefur aldrei verið það. Best er að vanda til vals á markhópum og ekki kasta til þess höndum.

Þegar markhópurinn er ekki móttækilegur fyrir skilaboðin þín, er áhugalaus um vöru þína eða þjónustu og þú skilaboðin vekja hvorki áhuga né athygli er hæpið að hann bregðist við þeim. Í sumum tilfellum getur honum orðið í nöp við skilaboðin, um vöruna eða þjónustuna eða um

fyrirtækið þitt. Það er mjög vont ef skilaboðin þín eru að skapa þannig áhrif. Vöndum til verka og gerum ekki “bara eitthvað” út í loftið. Ef til dæmis ætlun bílaframleiðanda væri eingöngu að benda á nóg pláss í flestum bílum sínum við ólíkar aðstæður og eina markmiðið væri að vekja athygli, myndi auglýsing á borð við þá sem hér sést líklega duga. En þessi tilraun er almennt talin meðal helstu mistaka Ford.

Markhópar geta verið helstu talsmenn vöru þinnar eða þjónustu ef skilaboðin og vettvangur þeirra er valinn af kostgæfni, með skynsemi að leiðarljósi og þar sem viðkomandi verður helst heillaður af því sem þú ert að bjóða.


Hvert er markmið skilaboðanna til markhópsins?


Í raun má skipta markmiðum skilaboða í fjóra mikilvæga þætti. Þau eiga að:

 1. Vekja athygli

 2. Kveikja áhuga

 3. Móta ákvörðun

 4. Komast í framkvæmd.

Ef eingöngu er stefnt að því að vekja athygli má gera næstum hvað sem er, því tiltölulega auðvelt er að vekja athygli. En athyglin ein dugar ekki alfarið fyrir skynsama og árangursríka markaðssetningu. Skilaboðin þurfa að vera í takt við áhuga, lífsstíl, viðhorf og atferlis markhópsins, óskir hans eða væntingar, og það sem líklegt má telja að vekji áhuga á meiri upplýsingum.

Skilaboðin mega gjarnan hafa beina skírskotun til markhópsins og gott er að snerta á því sem er líklegt til að vekja áhuga, t.d. Í ljósi áhugamála, lífsstíls og óska. Ef kona sést t.d. með innkaupapoka sem vekur áhuga og forvitni geta skilaboðin haft áhrif á kynsystur sínar. En þau geta líka og auðveldlega haft áhrif á kaup karla, líkt og dæmin sanna. Öll kyn eru reglulegir neytendur að fjölmörgum vöruflokkum og því má gefa því gaum hvort skilaboðin séu hvetjandi fyrir viðkomandi markhóp. Það vekur athygli, áhuga og vonandi leiðir til ákvörðunar og framkvæmdar.

En í ljósi þessa er mikilvægt að þekkja markhópa sína eins vel og kostur er, þekkja væntingar þeirra og óskir. Með þær upplýsingar að vopni ætti að vera hægt að “slá í gegn” hjá viðkomandi markhópi.


Markmið boðmiðlunar, eru þau skýr?

Er tilgangur boðmiðlunar að viðhalda markaðsstöðu sinni, efna til nýrrar sýnar í markaðssetningu” eða er ætlunin að sækja nýja viðskiptavini? Er verið að leika “vörn” eða “sókn”?

Hver sem ætlunin er með markaðssetningunni er mikilvægt að kanna markaðsstöðu sína en það er nær öruggt að beinir og óbeinir keppinautar eru að bjóða hliðstæða vöru og þjónustu eða staðgönguvöru- og þjónustu. Þeir eru líklega búnir að vera undirbúa sig undanfarið og eru tilbúnir til að keppa við þig um hylli viðskiptavina og neytenda.

Markmið skilaboða þurfa að vera skýr og að hægt að mæla árangur þeirra og breyta markaðssetningu ef þess gerist þörf.


Hagsýni er mikilvæg og auðveld


Hægt er að annast markaðsmálin á afar hagstæðan og árangursríkan hátt um þessar mundir. Þá er næsta öruggt að starfsemin sem þú ert að keppa við hefur verið að rýna í og endurskoða markaðsaðgerðir sínar síðustu misseri. Hún hefur notað tímann undanfarið til að skipuleggja starfið framundan með upplýsingar sem eru til staðar eða er auðvelt að sækja. Samkeppnin hyggst vafalítið ná meiri árangri en til þessa. En það á síst af öllu að hindra þig til sóknar, heldur ætti það að hvetja til árangursríkrar markaðssetningar framundan. Með kosti góðra upplýsinga sem er tiltölulega auðvelt að sækja og er yfirleitt hagkvæm ákvörðun er sótt fram.

Til að hefja ferlið fyrir innihaldsríka markaðssetningu er mikilvægt að hafa í huga hvað markaðsfærslan á að gera: Hún á að vekja athygli, áhuga, hvetja til ákvörðunar og framkvæmdar í markhópum þínum og annarra sem þú vilt sækja til. Þetta kann að hljóma einfalt en án góðrar greiningar er notast við eigin ágiskanir eða vina og kunningja og það er sjaldan sem það er skynsamlegt. Við þurfum að þekkja viðmælendur okkar eins og kostur gefst.


Ef þú hefur áhuga á því að njóta kosta innihaldsríkrar markaðsfærslu, en skortir ráðgjöf um næstu skref, þá tökum við hjá Ráðhúsinu ráðgöf vel á móti þér.