• sigmundur2018

Jólahátíð haldin við fordæmalausar aðstæður


Þegar jólahátíðin nálgast förum við flest að undirbúa þau með einum eða öðrum hætti. Við kaupum jólagjafir, heimilið er skreytt með jólaskrauti og e.t.v. er jólatré sett upp. Við veljum hvað eigi að hafa í matinn og veltum fyrir okkur hverjir muni mögulega njóta þess með okkur.

Stundum er okkur boðið til annarra á aðfangadagskvöldi eða við bjóðum gestum til okkar. Einnig eru einhverjir sem hafa í fá hús að venda þetta kvöld eða heimilisaðstæður henta ekki til jólahalds. Þeir njóta þá mögulega jólanna með öðrum hætti en þorri landsmanna. Jólahátíðina halda langflestir í samræmi við það sem við viljum og höfum tök á hverju sinni.

Jólin eru sá tími ársins sem við gefum og þiggjum, njótum samvista með fjölskyldu og vinum, og gætum að vinarþeli, kærleika og sínum samkennd með þeim sem eru nærri.


Íhaldssemi jóla og hefðir á fordæmalausum tíma


Um jólahátíðina eru nokkrir þættir sem eiga sér langa hefð og þær sýna gjarnan íhaldssemi. Má þar nefna að á aðfangadagskvöldi þegar klukkur hringja inn jólin er stundum hlustað á messusöng í útvarpi, sígild jólaboð eru haldin á jóladegi, áramót tíðkast með Áramótaskaupi og flugeldum auk gestkvæmni á nýársdegi.

Hvernig reyndust jólin okkur í ár? Rannsóknateymi Ráðhússins ráðgjafar ákvað að varpa fram fáeinum spurningum í óformlegri viðhorfskönnun til að svara einhverjum spurningum sem kunna að vakna við ófyrirséð jólahald.

Spurt var um nokkra þætti jólahalds auk spurninga um aldur og kyn. Við höfum tekið saman nokkra punkta í niðurstöðum könnunar okkar sem vonandi vekur athygli meðal lesanda.

Spurt er hvort jólahátíðin hafi verið haldin með hefðbundnu eða óhefðbundnu sniði. Einnig er spurt hvort jólahátíðin í ár hafi verið betri eða verri í huga aðspurðra og hvernig jólaboði á jóladegi hafi verið háttað. Einnig er spurt um flugelda um áramótin og hvernig áramótaskaupið á RÚV hafi líkað.


Við byrjum á því að spyrja hvort jólin hafi verið haldin á hefðbundinn eða óhefðbundinn hátt. Ef litið er til svara þeirra sem afstöðu tóku til spurningarinnar töldu tæplega þriðjungur

hátíðina hafa verið haldna með óhefðbundnum hætti en ríflega ⅔ svarenda héldu hefðbundin jól að eigin áliti. Aðeins um tveir af hundraði svarenda héldu ekki jól að þessu sinni.

Í ljósi þeirra takmarka sem gilda vegna Covid-19 faraldurs má varpa þeirri spurningu fram hvort aðspurður hafi haldið jólaboð eða kvöldboð þegið á aðfangadagskvöldi.

Tæplega þriðjungur naut aðfangadagskvölds án gesta á heimili sínu. Ríflega helmingur, eða um 55% svarenda buðu eða þáðu boð á aðfangadagskvöldi.

Á Jóladegi hefur gjarnan tíðkast að farið sé í jólaboð eða það sé haldið á heimilinu. Við þær aðstæður sem nú ríkja um takmarkanir, hópamyndun, sóttvarnir og annað því tengt vegna ríkjandi faraldurs mætti e.t.v. búast við því að fáir hafi haldið eða sótt jólaboð. Ef marka má niðurstöður óformlegrar könnunar okkar voru ríflega helmingur heima hjá sér á jóladegi og þeir buðu ekki gestum eða þáðu boð annarra. Tæplega 39% aðspurðra fóru í jólaboð á jóladegi. Hvort það teljist hefðbundið hlutfall jólaboða á jóladegi getum við ekki sagt til um, en þessi ríkjandi hefð um jólaboð á jóladegi hefur mögulega raskast eitthvað í ár.

Í ljós óhefðbundinna tíma og þeirra aðstæðna sem mörg heimili geta verið að fást við má spyrja hvort þessi jól árið 2020 hafi verið betri eða verri samanborið við árið í fyrra. Hér er hvorki spurt hvað valdi því eða orsaki að jól séu með öðrum hætti að þessu leyti samanborið við jólin í fyrra né hvernig jólin reyndust í fyrra hjá aðspurðum. Eingöngu er spurt hvort jólin hafi verið betri, verri eða ámóta samanborið við jólin í fyrra.

Meirihluti aðspurðra eða nær þremur fjórðu þeirra telja að jólin hafi verið áþekk jólunum í fyrra, meðan tæp 10 af hundraði töldu þau verri en 15% töldu jólin hafa verið betri í ár en í fyrra. Það verður að teljast ánægjulegt að jólin hafi reynst flestum góð, þrátt fyrir fordæmislausar aðstæður vegna ríkjandi faraldurs.Áramótin 2020


Um áramót hafa gjarnan verið kveiktar brennur, flugeldum skotið, málsverðar notið í góðum félagsskap, áramótaheiti strengd og horft á áramótaskaup RÚV rétt fyrir miðnætti. Okkur hjá Ráðhúsinu ráðgjöf lék forvitni á að vita hvernig aðspurðir höguðu þessum hefðbundnu þáttum áramóta árið 2020. Brennur voru ekki leyfðar, en heimilt var að skjóta flugeldum og Áramótaskaupið var á hefðbundnum stað í dagskrá Sjónvarpsins.

Við spurðum þátttakendur hvort keyptir hefðu verið flugeldar í tilefni áramótanna. Ef marka má niðurstöður óformlegrar könnunar okkar skiptist hópurinn til helminga meðal þeirra sem afstöðu tóku til spurningarinnar. Þannig var það um helmingur sem keypti flugelda á meðan annar helmingur gerði það ekki.


Þegar spurt er hvað skipti helst máli meðal aðspurðra við kaup á flugeldum og hvernig forgangi þess er varið kemur í ljósi að mestu skiptir hver nýtur góðs af kaupunum. Þá er nefnt öryggi flugeldanna, góðir flugeldar, næst verð og síðast stórir og kraftmiklir flugeldar.

Loks var spurt um Áramótaskaup RÚV og hve “mörgum” stjórnum af fimm það ætti skilið í huga svarandans. Svörin reyndust spanna frá einni stjörnu til fimm stjarna, en þegar tekið var saman meðaltal svara kemur í ljós að skaupið naut almennrar hylli og fær 4 stjörnur.

Við viljum nota tækifærið og þakka öllum sem tóku þátt í óformlegri könnun okkar um jólahátíðina 2020 og hvernig hennar var notið hjá þátttakendum. Að jafnaði tók aðeins um fimm mínútur að svara könnuninni og upplýsingarnar sem svörin veittu okkur reyndust áhugaverðar og skemmtilegar. Rannsóknateymi Ráðhússins ráðgjafar mun halda áfram að afla svara við ýmsum spurningum og biður þá sem vilja taka þátt með því að svara skemmtilegum spurningum í viðhorfskönnunum að skrá sig í viðhorfahópinn okkar. Að auki verða reglulega dregnir út úr hópi okkar einhverjir lánsamir sem munu njóta ýmissa vinninga með þátttöku sinni í könnunum okkar.