• sigmundur2018

Það er gull í gögnunum

Það verður að segjast alveg eins og er að ástandið í ferðaþjónustu á heimsvísu er mun verra en vonast hafði verið til við upphaf heimsfaraldursins. Raunar má alveg rifja upp fleyg orð Warren Buffet sem sagði “við sjáum ekki hverjir eru að synda naktir, fyrr en það fjarar” og þetta má heimfæra upp á stöðuna núna. Raunar er ekki ofsagt að sumir í ferðaþjónustu hafi minnt á Tom Hanks í Castaway. Rétt er að rifja upp að ferðaþjónusta var fyrir Covid faraldurinn ein af stærstu atvinnugreinum heims og stóð undir um 10% af heimsframleiðslu. Það er því sannarlega ekki sér- íslenskt vandamál sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir.

Nú þegar ferðaþjónustan er á kafi við að halda sér gangandi og við sjáum fyrir endann á Covid ástandinu er spurning hvaða tæki og aðferðir gagnist best til að koma sér hratt af stað aftur. Svarið teljum við að sé að finna í þeim gögnum sem þú hefur verið að safna um þína viðskiptavini. En það eru svo sem engar sérstakar fréttir fyrir flesta.


Flestir sem stunda einhver viðskipti geta varla hafa komist hjá því að heyra rætt um 4. iðnbyltinguna og það hvernig gögn og gervigreind eru að umbylta viðskiptum og verslun. Sannleikurin er hins vegar sá að fæst ferðaþjónustufyrirtæki virðast hafa séð tækifærið í nýtingu á þeim gögnum sem er safnað. Mörg þeirra virðast láta sig upplýsingagullið litlu skipta og gera fátt við þau gögn sem þau þó safna.


Það er vandi að sjá hvað veldur, en kannski er það hræðsla við að hleypa einhverjum í að skoða gögnin. Aðrir virðast ætla að endurtaka mistök Kodak sem uppgötvaði stafrænar ljósmyndir á sínum tíma. Kodak var nefnilega ekki tilbúið til þess að breyta um kúrs af ótta um að eyðileggja þá kjarnastarfsemi sem Kodak var í á þeim tíma. Það voru því samkeppnisaðilar Kodak sem nutu góðs af. Ótti við fjárfestingar á nýjum sviðum getur þvi verið hættuleg fyrirtækjum sem vilja ná árangri til framtíðar.

Fyrir ferðaþjónustufyrirtæki teljum við að fjárfestingar í stafrænum lausnum þar sem áhersla er lögð á persónulega þjónustu séu lykilinn að framtíðinni. Við teljum stórhættulegt að horfa til fortíðar í þessu og þau fyrirtæki í ferðaþjónustu sem muni fjárfesta í betri nýtingu á gögnum um viðskiptavini sína, muni skapa sér samkeppnisforskot. Þarna erum við ekki eingöngu að tala um söguleg gögn, heldur ekki síður um rauntímagögn beint frá viðskiptavinum.


Mikilvægi og kostur þess að setja stefnuna á persónulega þjónustu er sú mikla hagræðing sem getur fylgt því að nálgast viðskiptavini beint. Þetta á ekki hvað síst við þá aðila sem greitt hafa háar fjárhæðir til Google og Facebook, svo ekki sé minnst á þær fjárhæðir sem runnið hafa úr landi og í vasa erlendra bókunarkerfa. Það er ljóst að ef markaðs- og sölukostnaður er svo hár, að erfitt er að standa undir rekstrinum, þarf að grípa til viðeigandi aðgerða. Þar sjáum við m.a. mikil tækifæri í upplýsingatækni og beitingu hennar.


Einmitt þetta hefur ekki farið framhjá Amazon, enda kunna fá fyrirtæki betur á söfnun og nýtingu upplýsinga. Jeff Bezos hefur lengi haft áhuga á ferðaþjónustu og nú virðist hann sjá tækifæri til að sækja inn á þennan markað. Amazon Explore er sem stendur eingöngu opið á Bandaríkjamarkaði, en það er næsta víst að Amazon ætlar sér að sækja inn á ferðaþjónustumarkaðinn. Þegar Amazon kemur af fullum þunga inn á markaðinn, verður að teljast næsta víst að Amazon muni nýta sér þær upplýsingar sem það býr yfir til að þróa nýja vörur. Ná þannig til neytenda á grunni gagngreiningar og þekkingar sem fáir aðrir búa yfir.

Einhver gæti hér búist við á súpu af tæknimáli, svona til að vekja upp minnimáttarkennd hjá þeim sem ekki fylgjast með tæknibreytingum af áhuga og eldmóð. Forspárgreiningar, forspárlíkön, sjálfvirknivæddur gervigreindarbúnaðar, gagnavötn, gagnasíló, sjálfsafgreiðslu viðskiptagreiningar og stafrænar skrifstofur. En við skulum bara ræða þetta á mannamáli.


Þetta er raunar einfalt og fyrirtæki þurfa að:


  • Sækja sér aðstoð frá upplýsingatækni ráðgjöfum þar sem í því felst minni áhætta en að halda að sér höndum. Ekki telja gögnin sem þarf að nota við þá greiningu svo viðkvæm að þau þoli ekki skoðun.

  • Það þarf að koma gögnunum í það horf að hægt sé að nýta sér gervigreind til að vinna með þau.

  • Sækja sér ráðgjöf í bland við samstarf við sitt starfsfólk, til þess hámarka nýtingu allra gagna sem er safnað um viðskiptavini.

  • Uppfæra öll stafræn viðmót, bæði fyrir vef og snjalltæki til að safna sem allra bestum upplýsingum.


Því miður eru of margir sem ekki átta sig á því að gervigreind gerir svo miklu meira en benda á að sá sem kaupir golfferð gæti haft áhuga á að kaupa einnig golfkúlur. Gervigreind er svo miklu öflugri en það, því hún ræður við að rótast í gegnum gríðarlegt magn upplýsinga frá þúsundum viðskiptavina. Veðrið meðan á dvöl viðskiptavinar þíns stendur; hversu mikið rafmagn var á símanum þeirra, safna GPS gögnum frá þeim sem sýna hvar þeir hafa verið og hversu lengi á hverjum stað; lesa umsagnir um hverja verslun, sýningu og farartæki; og bókunarsögu þeirra. Alvöru gervigreind túlkar öll þessi gögn og bregst við í rauntíma og verður betri og betri eftir því sem meira af gögnum er safnað.


Tækifærið sem gervigreind gefur þér er að koma fram við alla þína viðskiptavini eins og þeir séu þínir allra bestu viðskiptavinir. Eins og þú sért að bjóða þeim aðgang að einkaþjóni, en í rauntíma og fyrir brot af kostnaðinum sem raunverulegur einkaþjónn kostar. Þitt markmið er að auka viðskipti, virði og tryggð með því að nýta gögn sem þú býrð yfir. Þetta á ekki að þurfa vera sérlega flókið eða taka langan tíma. Svo framarlega sem þú velur þér góða samstarfsaðila. Staðreyndin er hins vegar sú að sorglega fáir stjórnendur hafa sett fókus á nýtingu gagna og allt of fáir virðast átta sig á þvi að persónuleg þjónusta er ekki sú sem fer fram í eigin persónu.


Því teljum við mikilvægt að ferðaþjónustan grípi það tækifæri sem Covid19 hefur fært okkur. Að fá tækifæri til að prófa næstum hvað sem er. Staðreyndin er einfaldlega sú að þú hefur engu að tapa. Komdu til okkar og leitaðu góðra ráða um hvernig þú getur breytt gögnum í gull. Þau eru nú þegar að safnast upp hjá þér og þú átt þau til og núna er rétti tíminn. Við tökum vel á móti þér.