• sigmundur2018

Fimm þættir í stafrænni þjónustu hins opinbera

Nú þegar komið er fram á 3 áratug 21. aldarinnar og nær 3 áratugir frá því fyrsta almenna íslenska internetveitan hóf starfsemi ætti vart að þurfa að ræða mikilvægi stafrænnar stjórnsýslu og innleiðingu góðra lausna hjá öllum stofnunum hins opinbera og þá sérstaklega hvað varðar nærþjónustu sem er á hendi sveitarfélaga. Staðreyndin er hins vegar sú að íslensk stjórnsýsla er misjafnlega langt á veg komin í innleiðingu stafrænnar þjónustu. Raunar fer tvennum sögum af stöðu Íslands þegar kemur að stafrænni þjónustu hins opinbera í samanburði við aðrar þjóðir. Samkvæmt úttekt Sameinuðu Þjóðanna standa Íslendingar sig vel og eru meðal fremstu þjóða, líkt og sjá má hér.


Heimild: Sameinuðu Þjóðirnar


OECD sér stöðuna með öðrum hætti og telur Ísland standa mjög illa í samanburði við aðrar þjóðir innan OECD. En það er þó rétt að vekja athygli á því að ef við skoðum niðurstöðu Sameinuðu Þjóðanna er Ísland á fleygiferð í stafrænni opinberri þjónustu. Þannig var Ísland talið vera í 19. sæti á heimsvísu árið 2018, en tveimur árum síðar erum við komin í 12. sæti. Jafnframt er athyglisvert að í niðurstöðum OECD lenda Finnland, Ísland og Svíþjóð öll fremur neðarlega.

Heimild: OECD Digital Government Index (DGI): 2019


Raunar er það svo að Ísland og Íslendingar hafa alla burði til að vera í fremstu röð. Hér eru innviðir feiknalega góðir og mikil og almenn notkun á bæði snjallsímum og hefðbundnum nettengingum. Menntunarstig er hátt og almenn þekking og notkun á stafrænum lausnum útbreidd. Enda reynist mæling SÞ horfa helst til þeirra þátta, á meðan OECD reynir að leggja áherslu á hversu langt ríkin eru komin á sinni stafrænu vegferð er varðar aðgang að gögnum hins opinbera, frumkvæði og áherslu á notendur stafrænna lausna. Það er einfaldlega svo að það er margt sem skiptir máli í stafrænni vegferð hins opinbera og því getur aðferðin sem notuð er til að mæla stöðuna gefið svo ólíka niðurstöðu. Við hér hjá Raðhúsinu leggjum áherslu á 5 lykilþætti í stafrænni vegferð sveitarfélaga.


Í fyrsta lagi, eru gerðar margvíslegar lagalegar kröfur um meðferð mála sem gerðu það að verkum að áður en hægt var að nýta stafrænar lausnir þurfti að aðlaga regluverkið að hinum stafræna heimi. Þau eru ófá dæmin þar sem prentað eintak af stafrænum gögnum opinberra stofnana er komið á milli stofnana af borgurunum, til þess eins að vera slegið inn í annað stafrænt kerfi hjá viðkomandi stofnun. Það var jafnvel tilgreint í regluverki að eintökum skuli skilað prentuðum í ákveðnum fjölda eintaka. Hér skal sannarlega ekki dregið úr mikilvægi vandaðrar stjórnsýslu og það er mikilvægt að gögn séu áreiðanleg og ófölsuð. En þarna eru augljós tækifæri til úrbóta, með því einu að regluverki og vinnulagi sé breytt og unnt sé að nýta stafrænar lausnir.


Í öðru lagi, er nauðsynlegt að tryggja persónuvernd og örugga meðferð þeirra gagna sem unnið er með. Með tilkomu rafrænna skilríkja varð þetta mun einfaldara. Fjölmörg sveitarfélög veita nú íbúum aðgang að öruggum vefsvæðum þar sem íbúar geta sótt um helstu þjónustuþætti viðkomandi sveitarfélags. Allt frá umsókn um leikskóla fyrir þau yngstu til heimaþjónustu fyrir þau elstu. Þetta hefur í för með sér gríðarlegt hagræði fyrir íbúa viðkomandi sveitarfélags. Það er raunar áhugavert að skoða vefi helstu bæjarfélaga á landinu og sjá hversu langt mörg þeirra eru komin í þessum efnum. En það vekur vissulega mikla athygli þegar sveitarfélög, þar sem stór hópur fólks af erlendum uppruna býr hefur eftirfarandi skilaboð á vef sínum: “Þú getur notað Google til að þýða þessa vefsíðu. Við tökum enga ábyrgð á nákvæmni þýðingarinnar. ” Alþjóðavæðing íslensks samfélags virðist því fremur skammt á veg komin hjá mörgum af stærri sveitarfélögum landsins.


Áherslur Finna í stafrænni stefnumótun

Heimild: Fjármálaráðneyti Finnlands


Í þriðja lagi, er nauðsynlegt að sveitarfélög marki sér upplýsingatæknistefnu í þeim málaflokkum sem eru á þeirra hendi. Þar bendum við sérstaklega á mikilvægi þess að þau stígi varlega til jarðar þegar kemur að innleiðingu á stafrænum lausnum í skólastarfi. Þetta virðist eiga sérstaklega við um kennslu á fyrstu árum grunnskólagöngu. Rannsóknir sýna að nemendum gengur verr að lesa þegar lestur fer fram á skjá, en í hefðbundinni bók. Stafrænar útgáfur af skólabókum hafa reynst misjafnlega vel, auk þess sem viðbúið er að börn hafi misjafnan aðgang að góðum stafrænum tækjum og nettengingum. Jafnframt að sveitarfélög tryggi jafnan aðgang allra íbúa, sem snýr þá sérstaklega að þjónustu við viðkvæma hópa innan sveitarfélagsins. Hér er til dæmis áhugavert að skoða stefnumótun Sambands íslenskra sveitarfélaga sem augljóslega hefur metnað fyrir hönd íslenskra sveitarfélaga að ná góðum árangri í innleiðingu stafræna lausna, líkt og sjá má á vef sambandsins.


Í fjórða lagi, þarf að tryggja samtal við hagaðila, íbúa, fyrirtæki og opinbera aðila. Það liggja mikil tækifæri í því að opna samtal um tækifæri til þess að bæta þjónustu og ekki síður til þess að ná meiri árangri. Vert er að hafa í huga, að þarna eru sveitarfélög að taka skref inn í meiri lýðræðisvæðingu og mikilvægt að vel sé vandað til verka. Það er ánægjuleg staðreynd að íslenskt hugvit hefur verið í fremstu röð þegar kemur að hugbúnaði sem býr til vettvang til þess að eiga þetta samtal. Markviss stafræn markaðssetning með áherslu á kosti viðkomandi sveitarfélaga fyrir nýsköpun virðist þó vannýtt tækifæri. Eitthvað sem við í Ráðhúsinu teljum að sé ákaflega mikilvægt að huga að. Við hjá Ráðhúsinu búum yfir sérþekkingu á þessu sviði og þá sérstaklega þegar kemur að ferðaþjónustu.


Í fimmta lagi, er nauðsynlegt að sveitarfélög hugi að því að marka sér fjárfestingastefnu þegar kemur að upplýsingatækni. Mikil samlegðaráhrif geta falist í sameiginlegum innkaupum og þróun. Þó vissulega séu sveitarfélögin misjöfn að stærð, þá eru kröfur um þjónustu svipaðar og vegna þeirrar áhættu sem falist getur í því að sérsníða lausnir er mikilvægt að undirbúa sig vel. Mikilvægt er að huga að útboðsmálum ef verkefni eru af þeirri stærðargráðu og sömuleiðis þarf að tryggja örugga verkefnastjórnun allt frá undirbúningi til afhendingar. Jafnframt er mikilvægt að átta sig á rekstrarkostnaði og leyfisgjöldum, nú þegar margir hugbúnaðarframleiðendur selja vöru sem þjónustu í áskrift eins og til dæmis bæði Microsoft og Adobe gera.


Líkt og áður sagði er augljós vilji bæði stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga að vel sé staðið að stafrænum verkefnum hjá sveitarfélögunum. Við hjá Ráðhúsinu búum yfir djúpstæðri þekkingu á sviði upplýsingatækni, markaðsmála og reksturs og þekkjum vel til í umhverfi sveitarfélaga. Við getum því veitt ráðgjöf varðandi alla þessa 5 lykilþætti og þannig náð sem mestum árangri í stafrænni vegferð þíns sveitarfélags.