• sigmundur2018

Facebook á fallandi fæti?

Updated: Feb 1, 2021

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að síðastliðið ár var áskorun fyrir stjórnendur Facebook. Við hjá Ráðhúsinu teljum að snjallir markaðsstjórar ættu að skoða vandlega hvaða árangri Facebook og samfélagsmiðlar í eigu Facebook á borð við Instagram er að skila þeim. Að okkar mati eru nú að koma fram vísbendingar um að Facebook og tengdir samfélagsmiðlar hafi náð ákveðnum hápunkti og því mikilvægt að skoða samsetningu samfélagsmiðla í markaðsmálum til að tryggja árangur.


Þrátt fyrir þá staðreynd að í könnun sem gerð var á notkun Íslandinga á samfélagsmiðlum, hafi Facebook borið höfuð og herðar yfir aðra samfélagsmiðla, þá teljum við fulla ástæðu til þess að velta fyrir sér bæði notagildi Facebook fyrir markaðsfólk og ekki síður hvert Facebook stefnir. En við tökum það strax fram að við erum alls ekki að draga í efa notagildi Facebook. Allir sem reynt hafa, vita að það er hægt að ná árangri í markaðsmálum á Facebook. Það eru hins vegar fimm punktar sem við viljum draga fram varðandi Facebook sem við teljum afar mikilvægt fyrir markaðsaðila að velta fyrir sér. Rétt að minna á að Facebook er líka eigandi Instagram, svo það er hluti af þessari umfjöllun.


Heimild


Í fyrsta lagi, þá er yngsta kynslóð neytenda, stundum kölluð Z kynslóðin, ekki sérlega hrifin af Facebook. Hún elskar Tik Tok, Snap og kannski Instagram, en við teljum að það sé líka farið að halla undan fæti fyrir Instagram. Vöxtur Instagram í Bandaríkjunum hefur verið hægur og við teljum að ef ekki hefði verið fyrir “stories” þá hefði Instagram tapað notendum. Jafnframt virðist þessi kynslóð ekki hafa sérlega mikinn áhuga á áhrifavöldum eins og þeir birtast á Instagram. Sú sviðsetta mynd sem þar birtist kallar bókstaflega fram neikvæð áhrif hjá þessari kynslóð. Auk þess sem myndirnar sem birtast eru hver annari keimlíkari.


Heimild


Í öðru lagi, þá er aldamótakynslóðin líka að endurskoða notkun sína á Facebook. Þar hafa myndir á borð við The Social Dilemma og bækur eins og Hooked og Digital Minimalism haft sitt að segja. Þessi kynslóð hefur vaxandi áhyggjur af því hversu langt Facebook hefur seilst inn í einkalíf þeirra og nýtir sér nú margvísleg verkfæri til þess að koma í veg fyrir að markaðsaðilar geti nýtt sér þessar upplýsingar. Það er eina helst að Facebook hafi náð að halda í þessa kynslóð vegna notkunar hennar á Messenger - en alveg ljóst að þarna eru fjölmargir komnir í dyrnar og á útleið.

Heimild


Í þríðja lagi, þá virðist notkun á samfélagsmiðlum í eigu Facebook vera að minnka. Ekki eingöngu vegna þess að áhugi notenda hafi minnkað, heldur hefur Facebook í auknum mæli farið að úthýsa notendum. Fyrirtæki eru að lenda í ógöngum vegna þess að síðum þeirra er lokað og litlar skýringar fást frá Facebook. Stjórnmálaskoðanir bæði á vinstri og hægri vængnum geta orðið til þess að þér sé vísað út af Facebook og svo hreinlega virðist fólk eyða minni tíma á Facebook en áður. Jafnframt þykir Instagram hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd og geðheilsu hjá ungu fólki.

Í fjórða lagi, þá er tími áhrifavalda á samfélagsmiðlum Facebook að líða undir lok. Við þekkjum alveg hvernig þetta gerist. Til að byrja með næst frábær árangur í gegnum náttúrulegan vöxt. Þá sér Facebook sér leik á borði og breytir algríminu og það sem áður gerðist án greiðslu, þarf nú að greiða Facebook fyrir. Þetta þýðir að ef áhrifavaldar setja inn efni á Instagram, þá fær það ekki lengur jafn góða dreifingu á fylgjendur. Sem er engin tilviljun. Því Facebook vill auðvitað að auglýsendur greiði þeim fyrir að dreifa auglýsingaefni, fremur en greiða áhrifavöldum fyrir. Frá sjónarhóli áhrifavalda þýðir þetta að Tik Tok er mun líklegra til þess að skapa þeim vinsældir (og tekjur) en Facebook. Fyrir notendur er þetta einfaldlega þannig að þeir treysta ekki lengur nokkru sem þeir sjá á Instagram. Dæmin um svindl eru bara orðin of mörg.


Í fimmta lagi, þá þykir of mörgum sem neikvæð áhrif bæði Facebook og Instagram séu einfaldlega það mikil að viðhorf til þessara miðla er að verða neikvætt. Bæði í Bandaríkjunum og Evrópu eru nú stjórnvöld að huga að margvíslegum aðgerðum til þess að koma böndum á þessi neikvæðu áhrif. Hér getur því orðið hrun sem gerist hratt. Ef við rifjum upp örlög MySpace þá var eins og það tæmdist á nokkrum vikum. Það sama getur gerst hjá Facebook og tengdum samfélagsmiðlum. Þetta eru hin svokölluðu netáhrif og þau virka eins þegar fjarar undan. Því færri sem nota, því minna virði er samfélagsmiðilinn og því minna sem Facebook og Instagram er notað, því minna er gildi þessara samfélagsmiðla sem vettvangs fyrir markaðsfólk.


Við hjá Ráðhúsinu ráðgjöf fylgjust vel með því sem er að gerast á sviði upplýsingatækni og markaðsmála og veitum viðskiptavinum okkar ráðgjöf um hvernig best sé að ráðstafa markaðsfé.