• sigmundur2018

Er Apple að gera atlögu að auglýsingamarkaðinum?

Það er óhætt að segja að Apple eigi sér athygliverða sögu og fyrirtækið er í dag óumdeilanlega í feikilega sterkri stöðu. Nú velta sérfræðingar í tæknimálum því fyrir sér hvort Apple ætli sér að gera atlögu að auglýsingamarkaðinum og við hjá Ráðhúsinu ráðleggjum okkar viðskiptavinum að fylgjast vel með því sem er að gerast á stafræna auglýsingamarkaðinum. Að okkar mati, eiga auglýsendur að búa sig undir að árangur í stafrænum auglýsingum muni minnka og aðilum á markaði eigi eftir að fækka, sem þýðir að verðlag muni að líkindum hækka. Jafnframt teljum við að þessar breytingar muni skapa tækifæri fyrir íslenska útgefendur og auglýsingamiðla til að ná vopnum sínum í harðri samkeppni við erlenda tæknirisa.Hér er mikilvægt að staldra aðeins við og átta sig á þeirri stöðu sem hefur verið að myndast á stafræna auglýsingamarkaðinum. Undanfarin ár hefur orðið ljósara að samþjöppun er að verða mikil og vaxandi á þessum markaði og það eru tæknirisar á borð við Google og Facebook sem hafa náð hvað mestum árangri. Á sama tíma eru vaxandi áhyggjur af upplýsingaóreiðu og upplýsingasöfnun sem ESB hefur brugðist við með löggjöf og Bandarísk yfirvöld með málaferlum. Afleiðingin er að nú hafa bæði Google og Apple lagt fram hugmyndir um breytingar á því hvernig farið sé með persónuupplýsingar. Breytingar sem munu að öllum líkindum styrkja bæði Google og Apple verulega á auglýsingamarkaði. Fyrir auglýsendur mun það óhjákvæmilega leiða til hærri kostnaðar.Fortíð Apple gefur ákveðna hugmynd um á hvaða leið Apple er. Í byrjun var Apple tölvufyrirtæki og seldi Makka. Svo kom iPod til sögunar og allt í einu varð Apple öflugasta fyrirtækið í tónlistariðnaðinum, sem svo breytist með tilkomu streymisveitna á borð við Spotify, á meðan Apple er ekki lengur í sömu lykilstöðu. Enda kannski ekki sérstök ástæða til, en örlögin hafa hagað því svo að það er Spotify sem hefur lagt Apple í málaferlum fyrir samkeppnisdómi ESB. Apple er auðvitað með streymisveitu, en hún er ekkert lykilatriði fyrir Apple og hefur ekki verið frá því iPhone kom til sögu. Um svipað leiti ákvað Apple að reyna fyrir sér á sjónvarpsmarkaðinum með Apple TV, en sú tilraun mistókst og í dag eru það sjónvarpsstreymisveitur stóru framleiðenda sjónvarpsefnis, Netflix, Disney og HBO, auk Google og Amazon sem eru ríkjandi á þeim markaði.En það var ekki eins og Apple hefði sérstakar áhyggjur af þessu. Því árið 2008 opnar Steve Jobs App Store sem þá þegar hóf að mala gull fyrir Apple. Því þó Steve Jobs hafi í upphafi sagt að App Store ætti eingöngu að standa undir kostnaði, þá voru tekjur Apple af henni árið 2020 komnar í 15 milljarða bandaríkjadala, sem er meira en allar tekjur tónlistariðnaðarins á heimsvísu og með miklu betri framlegð. Um 90% af þessum tekjum koma í gegnum leiki og að mestu frá kaupum á hlutum í leiknum. Apple bjó þarna til, svona alveg óvart, nýja leið fyrir leikjaframleiðendur til þess að skapa sér tekjur sem var miklu stærri markaður en hefðbundar leikjatölvur buðu, sem eins og þeir sem fylgst hafa með fréttum vita að mun nú breytast. Apple mun einfaldlega ekki lengur komast upp með að krefjast 30% þóknunar af allri sölu. Apple “skatturinn” mun því líklega lækka og taka breytingum, sem eru sannarlega góðar fréttir fyrir hugbúnaðarframleiðendur.


Hér verður að benda á að Apple nýtir sér stöðu sína með margvíslegum hætti til þess að skapa sér tekjur. Þannig greiddi Google 10 milljarða dollara til Apple fyrir að vera sjálfvalda leitarvélin í Safari vafranum. Til að setja þetta í samhengi, þá eru þessar tekjur Apple upp á 25 milljarða dollara, þær sömu og heildartekjur Netflix á síðasta ári, sem þurfti að greiða 15 milljarða dollara fyrir sjónvarpsefni og Spotify hefur sýnt litla arðsemi fyrir sína eigendur. Svo mögulega hefur Apple litlu tapað á því að vera ekki á þessum mörkuðum lengur. En nú gæti Apple hins vegar séð tækifæri í auglýsingum og persónuvernd.Apple býr yfir bæði tækni og vettvangi til að skapa sér lykilstöðu á auglýsingamarkaðinum. Stafræni auglýsingamarkaðurinn er sannarlega á þeim stað í dag að þar eru tækifæri fyrir aðila á borð við Apple til þess að ná fram sambærilegum breytingum og Steve Jobs gerði þegar hann kom inn á tónlistarmarkaðinn eða leikjamarkaðinn. Þeir sem þekkja til auglýsingamála vita að þar er sannarlega hægt að gera betur.


Ráðhúsið ráðleggur fyrirtækjum og stofnunum í markaðs og upplýsingatæknimálum og sérfræðingar okkar fylgjast vel með þeim breytingum sem eru á þessum markaði, bæði hér heima og erlendis. Hvað getum við gert til þess að þú náir betri árangri?