KRÍSUSTJÓRNUN

Krísustjórnun má skipta í þrjá meginþætti:


Forvarnir 
Það er hlutverk fyrirtækis sem tekur að sér krísustjórnun að kanna með hlutaðeigandi forsvarsmönnum og starfsmönnum hvað kann að geta farið úrskeiðis við rekstur, hversu fjarlægir sem þeir möguleikar eru og skipuleggja viðbrögð við slíkum aðstæðum. Fyrstu viðbrögð eru að sjálfsögðu að bjarga mannslífum og síðan er hugað að eignatjóni og öðrum afleiðingum sem áfall kann að hafa í för með sér. Með því að gera ítarlegar áætlanir um hvernig bregðast skuli við hverskonar aðstæðum má draga mjög úr því tjóni sem kann að verða.


Stjórnun á hættustund 
Það er afar mikilvægt að verkferlar og áætlanir séu tilbúnar þegar brugðist er við áföllum sem geta dunið á hvenær sem er. Skipuriti er vikið til hliðar og kallaðir til sérfræðingar á þeim sviðum sem hætta stafar af. Hér skiptir öllu máli að bregðast við með miklum hraða og setja af stað skipulag sem að lágmarkar tjón og bjargar hugsanlega mannslífum og verðmætum. Mikilvægt er að upplýsingagjöf til opinberra aðila, viðskiptavina, starfsmanna og fjölmiðla sé rétt og nákvæm, til að koma í veg fyrir frekara tjón.


Viðbrögð við afleiðingum 
Afleiðingar af tjóni geta verið langvarandi og skipt marga máli. Skipulag á samskiptum við hlutaðeigandi, úrbótum og því að læra hvernig eigi að bregðast við í kjölfar áfalls er oft vanmetinn þáttur í krísustjórnun en getur skipt sköpum um hvernig þeim sem glíma við afleiðingar reiðir af og hvernig fyrirtækjum og stofnunum og félagssamtökum tekst til að hefja aftur rekstur að nýju með þeim hætti sem bestur getur talist.